Penzyme®

Okkar tækni við þróun og framleiðslu á vörum sem innihalda virk þorskensím kallast Penzyme® tæknin og er kjarninn í sérstöðu okkar og einkaleyfum.

Mynd: Iyaguchi, D., Toyota, E., Crystal structure of Atlantic cod trypsin

Hvað eru ensím?

Ensím eru prótín sem gegna mikilvægu hlutverki við niðurbrot fæðu í öllum lífverum. Sá flokkur ensíma sem hefur þá eiginleika að geta klofið eða klippt í sundur prótín kallast próteasar. Trypsín tilheyra þeim flokki próteasa sem þurfa aðkomu vatns til að kljúfa prótín. Zymetech einangrar trypsín úr þorski og notar í framleiðsluvörur sínar.

Sérstaða þorskatrypsíns

Trypsín úr þorski hafa einstaka eiginleika sem helgast m.a. af því hversu fjölbreytta fæðu þorskurinn étur og við hversu lágt hitastig hann meltir fæðuna. Þegar losað er um þorskatrypsín við líkamshita verða þau mjög virk í ákveðinn tíma og mun virkari en samsvarandi trypsín úr spendýrum. Það þarf því aðeins örlítið magn af þorskatrypsíni til að ná fram tilætlaðri virkni við líkamshita.

Penzyme® tæknin

Þorskatrypsín eru í eðli sínu óstöðug og ráðast gegn sjálfum sér ef virkni þess er óheft. Mikil rannsóknarvinna liggur að baki þeirri tækni að hefta virkni þorskatrypsíns í vöru sem geymd er við stofuhita og losa um virkni þeirra þegar varan er notuð. Zymetech þróaði tækni sem kölluð er Penzyme® tækni og gefur vörunum þessa eiginleika. Zymetech á víðtækt einkaleyfi á notkun þorskensíma.